fimmtudagur, febrúar 16

Ég var sauðdrukkinn


Nú finnst mér tímabært að deila með ykkur, lesendur góðir, síðastliðnu gamlárskvöldi. Kvöldið byrjaði í lok dags. Við Þórunn fórum í veislu og höfðum með okkur efni í eina fiskusúpu og eitt blakkát. Hvort tveggja heppnaðist fullkomlega. Súpan vakti mikla lukku og blakkátið ekki síður. Það er sennilega óþarfi að taka það fram að ég tók blakkátið á mínar herðar og hef sjaldan, kannski tvisvar eða þrisvar og þá sem unglingur, verið jafn sauðdrukkinn. Ég var gjörsamlega sigraður af eituráhrifum áfengis. Undir lokin gat ég ekki talað, ekki horft á neitt ákveðið og ekki gert greinarmun á líkama mínum og því húsgagni sem ég sat á þá stundina. Hugurinn var horfinn, enginn veit hvert. í þessu ástandi mátti Þórunn mín drösla mér heim á leið, um 5 kílómetra vegalengd, sem alla jafna tæki mann um 20 mínutur að komast með strætó. Þetta kvöld var hins vegar brjálað og ferðin tók á endanum um 3 klukkutíma. Svo segir Þórunn, en af þessum 3 tímum man ég eftir 2 mínútum eða 1,1% , sem er svipað hlutfall og áfengið í blóði mínu þá. Það sem ég man er að ungur, frískur, dökkur maður vindur sér upp að okkur Þórunni, þar sem hún er að bíða eftir strætó og ég er að bíða eftir hverju sem er, og segir við Þórunni: ,,✻☆✞☢#↓∝" Þórunn blótar honum í sand og ösku og ég afræð að blanda mér í málið enda hugurinn víðs fjarri. Eflaust hefur þú, lesandi góður, heyrt orðatiltækið ,,að leggja hendur á e-n". Það er akkúrat það sem ég gerði. Reyndar lét ég nægja að leggja aðra höndina á manninn, þá vinstri þar sem mér fannst hún vera nær, en sennilega hefði ég átt að leggja hægri höndina á hann. En það er auðvelt að vera vitur eftir á, enda algerlega vonlaust fyrir mig að vera það þar og þá. Nema hvað, unga manninum fannst hann sennilega svívirtur því árás mín leit út eins og ég vildi strjúka burt fellingu í stakknum hans, en sennilega er fátt eins hommalegt, og hann nýbúinn að sanna fyrir okkur að stelpur ættu sko heldur betur upp á hans pallborð. Mjög fjótlega upp úr því tók kjálkinn á mér á rás eitthvað í Austur. Þetta var það lengsta sem hann hafði farið að heiman til þessa, svo því fylgdi þónokkur verkur, og ekki laust við að ég felldi tár á þessum tímamótum. Þegar Þórunn sá að fórnarlamb mitt hafði snúið vörn í sókn dró hún mig nokkur skref í átt að kjálkanum og náðum við honum svotil strax. Þá brá hendi mín á leik, sennilega vegna sektarkenndar, og strauk neðri skoltinn eins og hún hefði ekki séð hann í árafjöld þó svo útþrá hans hefði verið svalað eftir flakk í einungis örfá sekúndubrot. Hendin mín róaðist þegar hún fann að kjálkinn var alkominn heim og undi sér eins og oft áður við að slútta, viðra tunguna og láta sleftaum leka á götuna. Við Þórunn fundum skjól í strætóskjóli og héldum þar til í ótilgreindan tíma, eða þar til strætóinn okkar kom. Þá hljóp Þórunn að vagninum til að fá örugglega far með honum og ég togaðist einhvernveginn í rétta átt. En enn átti ég óvin einhvers staðar í þvögunni og hann mundi eftir mér sem betur fer, því ég var búinn að steingleyma honum. Í því andartaki sem ég steig upp í vagninn minnti hann á sig og rifjaði upp okkar fyrri kynni. Að svo búnu hélt vagninn af stað með mig og Þórunni innanborðs en hann varð eftir. Ég man mig langaði til að berja hann augum í hinsta sinn, en þá var hann búinn að berja augað á mér svo illa að það lokaði sig af og neitaði að láta sjá sig í nokkra daga. Og ég man að á heimleiðinni hugsaði ég, eins og lítt reyndur fjárhirðir, ,,ég verð að læra að þekkja einn sauð frá öðrum".

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home