laugardagur, mars 21

Reynir Pétur, tannmissir og frádráttur/samlagning


Í gær tók ég strætó niðri á Hverfisgötu hvar Ríkey var fyrrum með nafna minn Reyni skælbrosandi úti í glugga. Ég ferðaðist með vagninum yfir í Kópavog alla leið og allan tímann prýddu mig þrjátíuogtvær tennur. Klukkustund síðar fór ég sömu leið til baka en þá með þrjátíuogeina tönn. Og á morgun verð ég þrjátíuogfjögurra. Og vagninn var nr. 1. Reikniði nú!

miðvikudagur, mars 18

iOuroboros

Stundum langar mig að segja eitthvað. Þá sest ég niður og skrifa nokkur orð á skjáinn. En það er aldrei það sem mig langar til að segja svo ég krumpa saman skjáinn og hendi í ruslið. Treð honum í tunnuna í hægra horninu niðri.

fimmtudagur, nóvember 27

Nasaþef af nýju Íslandi

... má finna hér
Er þetta ekki eitthvað kunnugleg lykt? 

mánudagur, október 6

Er Teflon ætt?


Þeir eru ófáir fersentimetrarnir sem ég (milligrammið) hef látið í mig af Tefloni í gegnum tíðina. Í gamla daga skemmti ég mér við lestur heimsmetabókar Guinness þar sem meðal annars var talað um mann sem át farartæki, stór og smá; flugvél, bíll og reiðhjól voru meðal þess sem hann hafði spænt í svarf og sáldrað yfir matinn sinn. Núna var ég að vaska upp stóra Wok pönnu sem í dag er ekki Teflon húðuð nema til hálfs. Hitt höfum við familían étið. Og munar víst um minna í dag. En það væri gaman að vita hvað maður þarf að éta mikið að Tefloni til að vera krýndur heimsmeistari. Líka væri fróðlegt að bera saman Teflon og Melamín sem er mikið notað í eldhúsáhöld en hefur hjá sumum þjóðum ratað í matvæli landsmanna, mörgum þeirra til ólífis. Fer ég að deyja? Hefur DuPont svarið? Ég er allavega að spá í henda þessari pönnu.

föstudagur, maí 25

wass

ég var að hugsa eitthvað áðan á hjólinu. Ég hjólaði Lönguhlíðina man ég í fyrsta sinn. Og ég man líka að ég einhverntímann blótaði skipulagsmálum fyrir að setja upp þennan stúf nánast engum að gagni. Hve margir þurfa að hjóla þriðjung Lönguhlíðar, sem liggur frá norðri til suðurs eða hittó? En í dag hjólaði ég þennan stúf mér til mikillar ánægju. ,,Meira svona“ hugsaði ég. Er lífið ekki stórkostlegt?