miðvikudagur, nóvember 9

Vönduð eintök

Við hjónaleysin og væntanlegir uppalendur búum á uppalendum með:

Breskri dúkku sem talar. Þetta er gamalt módel með einfalda lúppu: Ohh, I´m so tired. I´m completely exhausted. I was workin last night and... Ohh, I´m so tired. I´m completely exhausted. og svo framvegis. Við reynum að toga sem minnst í þann spotta.

Fjögurra ára dreng sem talar eiginlega bara um Spiderman og horfir á myndina með Tobey Maguire tvisvar á virkum dögum og tólf sinnum yfir helgi. Við vorum að segja vinkonu okkar frá þessu um daginn og hún fór að hafa áhyggjur af spólunni, hún væri sennileg orðin slitin og gæðin ekki sem skildi. Þar hitti hún naglann á höfuðið. En drengurinn er fínn. Sá eini með viti af meðleigjendum okkar.

Mömmu drengsins. Leigusalinn okkar hefur staðið sig vel í að koma sér í aðstöðu sem hún þolir ekki, eignast barn sem hún þolir ekki með þunglyndum norðmanni sem þolir þau ekki og endurvakið sambúð sína með:

Manni sem er þannig innréttaður, þrátt fyrir þau 45 ár sem hann hefur haft til að hugsa sinn gang, að hann fer þrisvar á dag upp í herbergið sitt í fýlu. Við álpuðumst eitt kvöldið til að fara að leita að potti þegar hann var að elda. Hann sagðist ætla að bregða sér upp að skipta um föt en sást svo ekki meir. Steikin kólnaði og leigusalinn kvartaði. Ég riðaði. Skiljiði?

þriðjudagur, nóvember 8

Svona rata ég um Vínarborg:

Ef ég ætla til Jóns, nýja vinar míns, sem býr á Schottenfeldgasse þá tek ég lestina til Karlsplatz, fer upp á götu hjá skólanum mínum, held sem leið liggur í átt að markaðnum en beygi eftir smá spöl til hægri hjá hnakklausa DBS-inu og held þar áfram um hliðargötu sem endar hjá reiðhjólastæði, en þar geng ég í lítinn boga til vinstri þangað til ég kem að DRZ-unni með 18 lítra tanknum. Þá tek ég stefnuna til hægri og fer upp tröppur en ofan við þær stendur silfurlitað BSA ca. 50 módel. Ég skunda fram hjá því lítinn spotta eða þar til ég er steinsnar frá gömlu Puch með rifnu sæti og sprungna afturlukt (hugsanlega frostsprungna), þá sný ég mér til vinstri og held áram upp Mariahilferstrasse, en það er Laugavegur bæjarins. Við þann veg standa mótorhjól í röðum eins og Rússar við bakarí, sum hver meira að segja Rússnesk. Svo þarf ég að hafa augun opin fyrir stökkpalli sem krakkar hafa smíðað en gleymt því um leið og hann birtist snarsný ég mér til hægri og hleyp eins hratt og fætur toga í nákvæmlega 17 sekúndur en þá stöðva ég jafnharðan og er þá staddur við útidyr á húsi Jóns og þarf ekki annað en að teygja út hendina og styðja á hnapp númer 6. Einfalt og gott.

Dytti okkur Jóni svo í hug, segjum eftir góða máltíð og skemmtilegt spjall, að halda áfram spjallinu skemmtilega á einhverri knæpu, og fyrir valinu yrði Flex sem er einkar áhrifaríkur skemmtistaður með rólegum bar annarsvegar og æpandi tekknóhelli hinsvegar, þá væri hægt um vik og langbest að taka stefnuna fyrst til baka á stökkpallinn en hjá honum beygja til vinstri og hverfa þar ofan í jörðina í smá stund og koma upp hjá svertingjunum tveimur við bakka Dónár en láta ógert í það sinnið að spyrja þá til vegar því þeir myndu bara segja það sama og síðast: haltu félagi áfram sem leið liggur í átt að stóru undirfataauglýsingunni með hvítu stelpunni í hvítu blúndubuxunum og blendingjanum í hlébarðanærunum og gakktu rakleitt framhjá þeim, en ekki langt, því rétt hjá eru tröppur niður til hægri en þær skaltu nota og komast þannig niður að ánni. Kastaðu 5 evru seðli í ánna og fylgdu honum í þrjár mínutur og tuttugu sekúndur. Veiddu hann þá upp aftur og réttu manninum sem er þér á hægri hönd, hann hleypir þér inn á Flex.

Segjum sem svo að við Jón ílengdumst á barnum, værum kannski að tala um tíma og listir til dæmis, eða félagsleg hvörf eða togstreituna milli þess innra og ytra, eitthvað skemmtilegt allavega, og vildum svo þegar nóg væri komið finna aftur leiðina heim myndi mér reynast best að snúa til baka, kasta svalri kveðju á hjálplegu svertingjana og hafa uppi á ofurölvi gallaklæddum dreng með Drago-strípur sem myndi án efa hjálpa mér aftur að finna þann næturstrætó sem gæti skilað mér til Hutteldorf hvar ég bý. Ef hann hins vegar ætlaði að leika sama leik og síðast og setja mig í rangan vagn með 5 klukkustunda martraðakenndum afleiðingum þá myndi ég kasta á hann kaldri kveðju og finna annan aðstoðarmann, því ég nenni ekki að sofa aftur á bekkjum og í bílum heila, kalda nótt.

meira seinna

bið að heilsa

Pétur von Wien

Kannski...

ég skrifi eitthvað hér, fyrst ég er í útlöndum og hef lítið að gera í augnablikinu.