Þessa dagana er ég að endurgera heimasíðuna mína og liður í því er að finna mér eitthvað að gera meðan tölvan renderar. Stundum glugga ég í bók eða kenni mér nokkrar þýskar sagnir. Nú síðast fór ég í göngutúr. Eflaust spyrð þú þig nú, lesandi góður, um hvað ég hafi verið að hugsa á göngunni, því það veit hvert mannsbarn að enginn gengur óhugsandi, og þá síst Reykvíkingur, ef ég legg réttan skilning í heiti ljóðs Sjóns:
Reykvíkingur hugsar á göngu. Nú vil ég segja ykkur hvað ég var að hugsa. Ég var að hugsa um að skrifa þessar línur á bloggið mitt, hvað ég ætti að segja og hvernig ég vildi segja það. En mér að óvörum hafa þessar síðustu setningar hinsvegar orðið til sí svona, óundirbúnar, áður óhugsaðar, en fullkomnar þó. Og nú veit ég ekkert hvert þetta er að fara. En, á göngu minni fann ég kofatetur og í því rjúkandi kaffi, tjúna/meió samloku og dagblað. Ég las einhvern tilbúning um ,,fuglaflensu" sem á eftir að eyða öllu kviku og ég las um franskt herskip sem Mitterand vildi láta eyða við Indlandsstrendur svo hann þyrfti ekki að íþyngja frönskum verkamönnum með 100 tonnum af asbesti. En einhver regnhlífasamtök (
Greenpeace fyrir þá sem vilja kynna sér málið) hringdu í frakklandsforseta og báðu hann að snúa dallinum við. Hann gerði það. Eða hann hefur sennilega hringt eitthvert og svo koll af kolli þar til síminn hringdi hjá skipstjóra dráttarbátsins og rödd sagði ,,snúðu aftur til Frakklands". Þá hugsa ég að skipstjórinn hafi sagt ,,æ, ég sem var alveg að lenda, en jæja, ég sný við og fer um súez-skurðinn". ,,Nei, - segir þá röddin í símanum ,,mér þykir það leitt, en þér er meinaður aðgangur þar. Þú þarft að fara suður fyrir". Og ef skipstjórinn er langlundaður eins og ég held, þá hefur hann sennilega sagt ,,Þetta stóreykur hættuna á að ,,fuglaflensan" berist með mér til Norður-Evrópu, en mig grunar nú að þessi pest sé uppspuni fjölmiðla í gúrkutíð svo ég ætla ekki að setja mig upp á móti þessari siglingaleið. HART Í BAK" Og svo tengdur er ég þessum skipstjóra að í sömu andrá og hann hrópaði skipun um að snúa við til áhafnar sinnar sneri ég við á göngunni og hélt heim á leið með 100 tonn af asbesti sem ég fann í ánni hér bak við hús.
Góðar stundir