fimmtudagur, febrúar 16

Ég gleymdi mér

Það henti mig um daginn, þegar ég kom heim eftir eitthvert útstáelsi og var sestur við mitt vinnuborð hvar ég löngum dvel að ég uppgötvaði mér til undrunar að ég hafði aldrei farið neitt. Enn í dag veit ég ekki hvort ég var eða fór, en leyfi mér stundum að gæla við þá hugmynd að ég hafi gert bæði. Það er, þegar á allt er litið, ekki svo ósennilegt.

Ganga

Þessa dagana er ég að endurgera heimasíðuna mína og liður í því er að finna mér eitthvað að gera meðan tölvan renderar. Stundum glugga ég í bók eða kenni mér nokkrar þýskar sagnir. Nú síðast fór ég í göngutúr. Eflaust spyrð þú þig nú, lesandi góður, um hvað ég hafi verið að hugsa á göngunni, því það veit hvert mannsbarn að enginn gengur óhugsandi, og þá síst Reykvíkingur, ef ég legg réttan skilning í heiti ljóðs Sjóns: Reykvíkingur hugsar á göngu. Nú vil ég segja ykkur hvað ég var að hugsa. Ég var að hugsa um að skrifa þessar línur á bloggið mitt, hvað ég ætti að segja og hvernig ég vildi segja það. En mér að óvörum hafa þessar síðustu setningar hinsvegar orðið til sí svona, óundirbúnar, áður óhugsaðar, en fullkomnar þó. Og nú veit ég ekkert hvert þetta er að fara. En, á göngu minni fann ég kofatetur og í því rjúkandi kaffi, tjúna/meió samloku og dagblað. Ég las einhvern tilbúning um ,,fuglaflensu" sem á eftir að eyða öllu kviku og ég las um franskt herskip sem Mitterand vildi láta eyða við Indlandsstrendur svo hann þyrfti ekki að íþyngja frönskum verkamönnum með 100 tonnum af asbesti. En einhver regnhlífasamtök (Greenpeace fyrir þá sem vilja kynna sér málið) hringdu í frakklandsforseta og báðu hann að snúa dallinum við. Hann gerði það. Eða hann hefur sennilega hringt eitthvert og svo koll af kolli þar til síminn hringdi hjá skipstjóra dráttarbátsins og rödd sagði ,,snúðu aftur til Frakklands". Þá hugsa ég að skipstjórinn hafi sagt ,,æ, ég sem var alveg að lenda, en jæja, ég sný við og fer um súez-skurðinn". ,,Nei, - segir þá röddin í símanum ,,mér þykir það leitt, en þér er meinaður aðgangur þar. Þú þarft að fara suður fyrir". Og ef skipstjórinn er langlundaður eins og ég held, þá hefur hann sennilega sagt ,,Þetta stóreykur hættuna á að ,,fuglaflensan" berist með mér til Norður-Evrópu, en mig grunar nú að þessi pest sé uppspuni fjölmiðla í gúrkutíð svo ég ætla ekki að setja mig upp á móti þessari siglingaleið. HART Í BAK" Og svo tengdur er ég þessum skipstjóra að í sömu andrá og hann hrópaði skipun um að snúa við til áhafnar sinnar sneri ég við á göngunni og hélt heim á leið með 100 tonn af asbesti sem ég fann í ánni hér bak við hús.

Góðar stundir

Ég var sauðdrukkinn


Nú finnst mér tímabært að deila með ykkur, lesendur góðir, síðastliðnu gamlárskvöldi. Kvöldið byrjaði í lok dags. Við Þórunn fórum í veislu og höfðum með okkur efni í eina fiskusúpu og eitt blakkát. Hvort tveggja heppnaðist fullkomlega. Súpan vakti mikla lukku og blakkátið ekki síður. Það er sennilega óþarfi að taka það fram að ég tók blakkátið á mínar herðar og hef sjaldan, kannski tvisvar eða þrisvar og þá sem unglingur, verið jafn sauðdrukkinn. Ég var gjörsamlega sigraður af eituráhrifum áfengis. Undir lokin gat ég ekki talað, ekki horft á neitt ákveðið og ekki gert greinarmun á líkama mínum og því húsgagni sem ég sat á þá stundina. Hugurinn var horfinn, enginn veit hvert. í þessu ástandi mátti Þórunn mín drösla mér heim á leið, um 5 kílómetra vegalengd, sem alla jafna tæki mann um 20 mínutur að komast með strætó. Þetta kvöld var hins vegar brjálað og ferðin tók á endanum um 3 klukkutíma. Svo segir Þórunn, en af þessum 3 tímum man ég eftir 2 mínútum eða 1,1% , sem er svipað hlutfall og áfengið í blóði mínu þá. Það sem ég man er að ungur, frískur, dökkur maður vindur sér upp að okkur Þórunni, þar sem hún er að bíða eftir strætó og ég er að bíða eftir hverju sem er, og segir við Þórunni: ,,✻☆✞☢#↓∝" Þórunn blótar honum í sand og ösku og ég afræð að blanda mér í málið enda hugurinn víðs fjarri. Eflaust hefur þú, lesandi góður, heyrt orðatiltækið ,,að leggja hendur á e-n". Það er akkúrat það sem ég gerði. Reyndar lét ég nægja að leggja aðra höndina á manninn, þá vinstri þar sem mér fannst hún vera nær, en sennilega hefði ég átt að leggja hægri höndina á hann. En það er auðvelt að vera vitur eftir á, enda algerlega vonlaust fyrir mig að vera það þar og þá. Nema hvað, unga manninum fannst hann sennilega svívirtur því árás mín leit út eins og ég vildi strjúka burt fellingu í stakknum hans, en sennilega er fátt eins hommalegt, og hann nýbúinn að sanna fyrir okkur að stelpur ættu sko heldur betur upp á hans pallborð. Mjög fjótlega upp úr því tók kjálkinn á mér á rás eitthvað í Austur. Þetta var það lengsta sem hann hafði farið að heiman til þessa, svo því fylgdi þónokkur verkur, og ekki laust við að ég felldi tár á þessum tímamótum. Þegar Þórunn sá að fórnarlamb mitt hafði snúið vörn í sókn dró hún mig nokkur skref í átt að kjálkanum og náðum við honum svotil strax. Þá brá hendi mín á leik, sennilega vegna sektarkenndar, og strauk neðri skoltinn eins og hún hefði ekki séð hann í árafjöld þó svo útþrá hans hefði verið svalað eftir flakk í einungis örfá sekúndubrot. Hendin mín róaðist þegar hún fann að kjálkinn var alkominn heim og undi sér eins og oft áður við að slútta, viðra tunguna og láta sleftaum leka á götuna. Við Þórunn fundum skjól í strætóskjóli og héldum þar til í ótilgreindan tíma, eða þar til strætóinn okkar kom. Þá hljóp Þórunn að vagninum til að fá örugglega far með honum og ég togaðist einhvernveginn í rétta átt. En enn átti ég óvin einhvers staðar í þvögunni og hann mundi eftir mér sem betur fer, því ég var búinn að steingleyma honum. Í því andartaki sem ég steig upp í vagninn minnti hann á sig og rifjaði upp okkar fyrri kynni. Að svo búnu hélt vagninn af stað með mig og Þórunni innanborðs en hann varð eftir. Ég man mig langaði til að berja hann augum í hinsta sinn, en þá var hann búinn að berja augað á mér svo illa að það lokaði sig af og neitaði að láta sjá sig í nokkra daga. Og ég man að á heimleiðinni hugsaði ég, eins og lítt reyndur fjárhirðir, ,,ég verð að læra að þekkja einn sauð frá öðrum".

laugardagur, febrúar 11

Launalaunung og pungadýrkun

Pungadýrkun vil ég kalla það þegar karlar hafa án ástæðu hærri laun en kvenkyns kollegar þeirra. Þetta er rótgróinn siður og sennilega faðir og móðir þess ósiðar að þaga yfir launum sínum.

"All he does is lie there like an unemployed whale."

Bart Simpson

fimmtudagur, febrúar 2

Um menningu

Hvað er svona merkilegt við það að vera listamaður? Ég hef auðvitað þurft að glíma við þessa ljótu spurningu lengi, enda býr í mér lítill listamaður sem þráir að brjótast fram á sjónarsviðið eins og úreltur hvíslari eða asískur bandamaður trúvilltur. Landslagið er ljótt og konseptið dautt; þess vegna þráast ég við. Þrá. Ég held að það sé orð ársins. Tvíbent á nefninlega upp á pallborðið hjá mér enn þó það þyki kannski ekki svo flott meðal menningarvita sem um allt vita nema vita menningu. þá týru bera þeir ekki kennsl á, og sjá ekki venslin milli týrunnar og spírunnar. Hverjir eru betri, Jón Proppé og Sen eða Stimpy og Ren? Kanntu brauð að baka eða bara haka við brauð á pöntunarlista nægtarinnar? Eggið sýður en síður en svo er innleggið slíður sem þarf að þvo. Leyfðu listinni að hjara og leifðu lystinni bara að leysast upp, fara, og skara framúr á veggjum með frímúr. Frímerkjalaust má senda upplausn jafnt til vandalausra sem handalausra; þannig er það nú. Molotovkokkteill er alltaf steinsnar frá siðmenningunni ef siðmenningin er steinsnar frá einræði. En samt er lýðræðið glatað.